Miðflokkurinn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Formaður
Atvinnumál
Miðflokkurinn telur mikilvægt að ráðast í kerfisbreytingar sem skili aukinni skilvirkni og framleiðni hjá hinu opinbera. Því er nauðsynlegt að minnka ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þannig að ekki séu lagðar sömu kvaðir á lítil fyrirtækin og þau stærri.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að stjórnvöld megi ekki innleiða nýtt íþyngjandi regluverk nema tvöfalt fleiri íþyngjandi reglur verði afnumdar samtímis í samræmi við stefnu ríkisstjórnar áranna 2013-2016.
Byggðarmál
Kjarninn í byggðastefnu Miðflokksins birtist í slagorðinu „Ísland allt,“ sem gengur út á að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan „Ísland allt“ hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú. Aðeins á þann hátt getum við farið úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.
Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar er mikilvægt að allar aðgerðir tengist saman og eitt styðji annað. „Íslandi allt“ er ætlað að ná til allra þátta sem skipta byggð í landinu miklu, svo sem samgöngur, fjarskipti, orkuflutninga, heilbrigðisþjónustu, menntamál, aðstæðum atvinnurekenda og allri annari þeirri þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.
Miðflokkurinn hefur áhyggur af misvægi milli landsbyggðarinnar og suðvesturhornsins og telur brýnt að styðja við uppbyggingu úti á landi og efla þannig byggð um allt land. Þessi sýn nær til allra málaflokka en brýnast er að tryggja að velferðakerfi okkar Íslendinga gagnist öllum. Því hefur Miðflokkurinn lagt mikla áherslu á að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og snúa þannig við þeirri óheillaþróun sem hefur orðið þar undanfarna áratugi með síversnandi þjónustu og verra aðgengi að henni. Miðflokkurinn hyggst styrkja á ný heilsugæsluþjónustu og sérfræðilækningar utan höfuðborgarsvæðisins. Á sama hátt er mikilvægt að öllum landsmönnum standi til boða jafngóð menntun á skyldustigi en því miður er mikill misbrestur þar á. Þá þarf ekki að taka fram að samgöngumál eru byggðamál.
Evrópumál
Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á samvinnu við lönd Evrópu en hafnar aðild að Evrópusambandinu. Miðflokkurinn lítur svo á að öllum viðræðum við sambandið hafi verið slitið og verði ekki hafnar aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin verði spurð hvort hún vill ganga í Evrópusambandið. Miðflokkurinn vill endurskoðun Schengen samstarfsins og telur að það þarfnist endurskoðunar í ljósi þess að fjölmörg Evrópulönd hafa á undanförnum árum vikið frá grundvallarreglum Schengen fyrirkomulagsins til að verja landamæri sín. Ísland þarf að vera fært um að nýta stöðu landsins sem eyja til að hafa stjórn á eigin landamærum en þó í góðu áframhaldandi samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.
Heilbrigðismál
Tryggja ber öllum Íslendingum jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Í því skyni verði horfið frá samþjöppunarstefnu í heilbrigðismálum og þjónustan færð nær almenningi um allt land. Heilbrigðiskerfið þarfnast endurskoðunar til að tryggja sem besta nýtingu fjármagns með það að markmiði að hámarka þjónustu við sjúklinga. Ríkið þarf því að nýta þjónustu þeirra sem eru best til þess fallnir að veita lækningar á viðunandi kjörum, en einnig krafta góðgerðarsamtaka og sjálfstæðra félaga, sem hafa skipt sköpum við að aðstoða sjúklinga og bæta lýðheilsu og gera það enn.
Með því að eyða biðlistum, fjölga hjúkrunar- og þjónusturýmum og efla heimaþjónustu má draga úr óþarfa kostnaði í heilbrigðiskerfinu og bæta líf sjúklinga og eldri borgara á Íslandi. Það er mikilvægt að þjónusta við sjúklinga verið byggð upp um allt land, núverandi heilbrigðisstofnanir verði betur nýttar og nýjar reistar. Meðal annars verði hafinn undirbúningur að nútímalegu sjúkrahúsi á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu.
Miðflokkurinn hefur lagt sérstaka áherslu á að öllum íslenskum ríkisborgurum, búsettum á Íslandi, 40 ára og eldri, standi til boða almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Það mun bjarga mannslífum, bæta lýðheilsu og spara peninga fyrir heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið.
Húsnæðismál
Miðflokkurinn vill ráðast í heildstæðar aðgerðir í þeim tilgangi að gera markað með íbúðir skilvirkari og sveigjanlegri þannig að hann geti komið til móts við þarfir almennings. Um leið á stefna stjórnvalda að stuðla að því að byggt verið fjölbreytt gæðahúsnæði og að lóðaskortur hamli ekki nauðsynlegri uppbyggingu. Á sama tíma þarf að vera tryggt að öllum íslenskum ríkisborgurum standi til boða tækifæri til að eignast eigið húsnæði. Allir sem á þurfa að halda eigi rétt á mótframlagi ríkisins sem svo verður greitt til baka við sölu fasteignar eða breytt í lán að 10 árum liðnum.
Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að samþykkt verða lög um eignarréttarstefnu í húsnæðismálum. Tryggja þarf hvetjandi regluverk á íbúðamarkaði og stuðla að fjölbreyttara og manneskjulegra húsnæði. Um leið þarf að huga að því að skattar og gjöld trufli ekki markaðinn og Miðflokkurinn vill afnema stimpilgjöld. Einnig leggur Miðflokkurinn til að almenningur fái heimild til að setja 3,5 prósentustig af lífeyrisiðgjaldi sínu í sjóð sem nýta má til eigin fasteignakaupa.
Jafnréttismál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að allir einstaklingar séu jafn réttháir og skuli metnir af eigin verðleikum en ekki út frá neinum öðrum persónulegum einkennum. Miðflokkurinn telur mikilvægt að standa vörð um frelsi einstaklinga og rétt þeirra til að hafa ólíkar skoðanir og tjá sig án þess að vera látnir gjalda fyrir.
Miðflokkurinn túlkar jafnréttismál í víðum skilningi og stendur vörð um frjálslyndi og þá grundvallarhugsjón lýðræðis að allir skuli hafa jafnan rétt á að hafa áhrif á stjórn samfélagsins. Stjórnmálamenn mega því ekki gefa eftir vald til stjórnkerfis sem ekki ber ábyrgð gagnvart kjósendum. Þannig er mikilvægt að jafnræði borgaranna gagnvart ríkisvaldinu sé tryggt og stofnunum ríkisins gert að veita borgurunum þjónustu – ekki öfugt. Til að ná þessu fram vill Miðflokkurinn tryggja að stjórnvöld veiti svör innan afmarkaðs tíma leiti borgarar eftir því. Þá er mikilvægt að lagalegt og fjárhagslegt jafnrétti sé tryggt ef til ágreinings kemur. Þá skiptir miklu að almenningi verði veittur sami tímafrestur og jafnræði að öðru leyti í samskiptum við stjórnvöld. Þeir sem eru ranglega eru ákærðir eða látnir sæta þvingunum af hálfu ríkisins munu sjálfkrafa eiga rétt á skaðabótum án þess að þurfa að fara í dómsmál. Miðflokkurinn vill að öll gildandi lög séu yfirfarin með tilliti til þess hvort þau tryggi grundvallarréttindi einstaklinga og séu skiljanleg. Þá er mikilvægt að dómstólum verði heimilt að líta til þess við úrlausn mála ef lög teljast of óskýr eða illskiljanleg til þess hægt sé að fylgja þeim með góðu móti. Lykilþáttur er að jafnræði borgaranna gagnvart ríkinu fyrir dómstólum verður tryggt.
Menntamál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að menntakerfið endurspegla þörf þjóðarinnar fyrir aukna verðmætasköpun og framþróun á næstu árum og áratugum. Fjármagn verði því sérstaklega beint í nám í tækni- og iðngreinum og stutt við þá sem vilja stunda slíkt nám. Um leið þarf að tryggja jafna stöðu allra nemenda, hvar sem er á landinu.
Atvinnulífið þarf á því að halda að menntakerfið útskrifi fólk með þekkingu á þeim sviðum sem skipta mestu máli við efnahagslega uppbyggingu landsins. Það hefur lengi verið rætt um mikilvægi þess að efla iðn- og tækninám. Í mörgum tilvikum er slíkt nám dýrara en annað nám. Fjárveitingarnar þurfa að taka mið af því og stjórnvöld ófeimin við að eyrnamerkja fjárveitingar ákveðnu námi. Skattgreiðendur, einstaklingar og fyrirtæki borga reikninginn. Þeir eiga að geta haft áhrif á hvernig fjármagnið er nýtt. Slík nálgun auðveldar líka ríkisvaldinu að liðka fyrir samstarfi skóla og fyrirtækja og auka ásókn í námið. Árlega ljúka 700 drengir grunnskólanámi án þess að vera þokkalega læsir. Það er einnig sláandi staðreynd að ungir menn eru aðeins 30% þeirra sem ljúka meistaragráðu úr háskólanum og karlmenn eru nú einungis þriðjungur þeirra sem stunda háskólanám. Miðflokkurinn leggur áherslu á að bæta stöðu drengja í skólakerfinu með því að horfa til þarfa þeirra.
Loftslagsmál
Miðflokkurinn leggur áherslu á markvissar og skilvirkar aðgerðir til þess að ná raunhæfum markmiðum í loftslagsmálum. Miðflokkurinn styður umhverfisvernd byggða á tækni, vísindum og heilbrigðri skynsemi. Því er mikilvægt að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka framleiðslu á Íslandi og framleiða þannig umhverfisvænar afurðir, auka útflutningstekjur og hagvöxt og bæta kjör landsmanna. Velferð verður ekki slitin úr samhengi við verðmætasköpun. Miðflokkurinn telur að unnt sé að ná öllum markmiðum í loftslagsmálum án þess að skerða efnahag landsmanna og mikilvægt er að tryggja að aðgerðir hitti ekki fyrir þá sem standa höllum fæti efnahagslega.
Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku veitir Íslendingum ómæld tækifæri til að auka verðmætasköpun um allt land. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir og orkukosti betur. Miðflokkurinn telur að Íslendingar ættu að einsetja sér að flytja út að minnsta kosti eins mikið eldsneyti og flutt er inn. Til dæmis mætti framleiða vetni og binda það, ammoníak og metenól. Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þarna getur Ísland komið með mikilsverð framlög og þarf að nýta tækifærin betur, jafnvel framleiða meira. Það getur þýtt að losun landsins aukist fremur en að minnka en á heimsvísu mun það draga úr losun og vera það besta sem við getum gert í loftslagsmálum. Það mun einnig bæta lífskjör Íslendinga.
Samgöngumál
Miðflokkurinn horfir til kerfisbreytinga í öllum málaflokkum og það á sérstaklega við í samgöngumálum. Ný nálgun þar mun gjörbylta uppbyggingarhraða samgöngumannvirkja. Með aukinni innviðafjárfestingu verður hvati til verðmætasköpunar stóraukinn en það tryggir getu samfélagsins til að standa undir nauðsynlegum velferðarkerfum. Miðflokkurinn vill tryggja að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýri, styður við uppbyggingu almenningsamgangna en hafnar Borgarlínu. Þá leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á flýtingu Sundabrautar.
Vegakerfið hefur lengi verið vanrækt og þarfnast stórfelldrar uppbyggingar. Til að auka hraða uppbyggingar þarf fyrirkomulag sem tryggir stöðugar endurbætur og viðbætur til framtíðar. Með stofnun almenningshlutafélags í eigu allra landsmanna getum við rofið kyrrstöðuna og sett af stað viðvarandi, gagngerar endurbætur á samgöngukerfi landsins. Umræddu félagi er ætlað að einbeita sér að uppbyggingu stofnvega. Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest.
Sjávarútvegsmál
Innlend matvælaframleiðsla til sjós og lands er meðal grunnstoða samfélagsins sem ber að tryggja til framtíðar. Án hennar verður hvorki fæðu- né matvælaöryggi þjóðarinnar tryggt. Mikilvægt er að starfsöryggi þessara grunnstoða verði tryggt og heildarframlag þeirra til samfélagsins metið. Í sjávarútvegi eins og öðrum greinum þurfum við stefnu sem bitnar ekki á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum eða ýtir undir samþjöppun.
Áfram skal byggt á aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi. Fiskveiðar í íslenskri lögsögu eru stundaðar með sjálfbærum hætti eftir ráðgjöf fiskifræðinga og vottaðar af þar til bærum viðurkenndum aðilum. Miðflokkurinn styður markmið núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og hafnar tilraunum til umbyltinga á því sem haft geta alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins. Miðflokkurinn styður sérstakan byggðakvóta til stuðnings svæðum sem eiga undir hög að sækja.
Miðflokkurinn vill að stjórnarskrá kveði á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum hennar. Á Íslandi hefur fiskeldi vaxið jafnt og þétt, treyst byggð, skapað störf og önnur verðmæti. Fiskeldi er sérstaklega verðmæt viðbót við atvinnusköpun á landsbyggðinni. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að laxeldi valdi tjóni á villtum laxastofnum og öðru lífríki, m.a. með kröfum um bestu mögulegu tækni, með mótvægisaðgerðum og ströngu eftirliti. Fyrirtæki verði sérstaklega hvött til að stunda fiskeldi á landi og stuðningur við það verði skoðaður.
Skattamál
Miðflokkurinn berst gegn óhóflegri og ósanngjarnri skattheimtu og telur að í skattkerfinu séu alvarlegar brotalamir sem verði að ráðst gegn. Þessar brotalamir stuðla að mismunun milli þjóðfélagshópa og landshluta en ekki síst gagnvart eldri borgurum sem Miðflokkurinn horfir sérstaklega til enda hefur flokkurinn sett út sérstaka réttindaskrá sem felur í sér að eldri borgarar munu greiða skatt á sama hátt og aðrir. Þá verði sá hluti lífeyrisgreiðslna sem er fjármagnstekjur verður skattlagður sem slíkur. Lífeyrir og aðrar hliðstæðar bætur frá Tryggingastofnun verða miðaðar við umsamin lágmarkslaun og hækki í takti við launavísitölu. Núverandi hindranir á atvinnu eldra fólks verða afnumdar. Frítekjumark atvinnutekna verður hækkað í 500.000 kr.á mánuði og frítekjumark greiðslna úr lífeyrissjóði verður 125.000 kr. á mánuði. Með því hvetur kerfið til sparnaðar og verðmætasköpunar. Miðflokkurinn telur að þannig er komið í veg fyrir mismunun gagnvart eldri borgurum og tækifæri þeirra aukin. Þá vill Miðflokkurinn auka vinnuframlag þeirra sem hafa vilja og getu til sem síðan eykur þjóðarframleiðslu og skatttekjur en bætir einnig fjárhag lífeyrissjóða.
Sóttvarnarmál
Miðflokkurinn hefur stutt tillögur sóttvarnaryfirvalda í baráttunni við faraldurinn en um leið gagnrýnt ákvarðanir og framkvæmd ríkisstjórnarinnar á ýmsum þeim efnahagslegu aðgerðum sem ráðist hefur verið í. Miðflokkurinn áréttar að mikilvægt sé að tryggja heilsu og öryggi landsmanna með það að markmiði að koma samfélaginu sem fyrst í skjól og tryggja að líf landsmanna komist sem fyrst aftur í eðlilegt form.
Stjórnarskrármál
Miðflokkurinn virðir stjórnarskrá landsins, meðal annars með því að ítreka að ekki séu gerðar breytingar á stjórnarskrá öðru vísi en að það sé í samræmi við ákvæði gildandi stjórnarskrár þar um.
Miðflokkurinn styður endurskoðun stjórnarskrárinnar enda hefur slík endurskoðun með einum eða öðrum hætti verið á stefnuskrá allra ríkisstjórna Íslands frá árinu 2009. Enn sem fyrr virðist skorta á samstöðu meðal þings og þjóðar um hverju á að breyta og jafnvel hvernig standa á að breytingum. Þó hefur verið ákveðin samstaða um ýmsar endurbætur er varðar stjórnarskrána og hefur Miðflokkurinn ávallt stutt að leita að því sem menn gætu náð saman um og ráðast í breytingar í samræmi við það. Miðflokkurinn leggst gegn byltingarkenndum breytingum á grunnriti stjórnskipunar okkar enda getur slíkt skapað réttaróvissu. Mikilvægt er að vel sé staðið að breytingum á þeim lögum sem ríki setja sér um grundvallarreglur varðandi skipulag og æðstu stjórn ríkisins og valdmörk þeirra sem fara með ríkisvald.
Umhverfismál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að nýta gæði landsins með sjálfbærni og hreinleika sem markmið. Þannig verði gert átak í meðhöndlun úrgangs og fráveitumál efld þannig að þau sæmi matvælaframleiðsluþjóð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænna að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langan veg. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu sem geti í framtíðinni starfað í hátækniumhverfi hér á landi. Hér eru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu.
Um leið er mikilvægt að gerbreyta stefnu Íslendinga í sorpmálum en Miðflokkurinn hefur talað fyrir því að hér verði reist hátæknisorpbrennslustöð. Hingað til hefur langmest af því sorpi sem fellur til verið urðað eða sent til útlanda og óljóst er hvað verður um það þar. Það er ólíðandi. Miðflokkurinn telur brýnt að könnuð verði hagkvæmni þess að við Íslendingar sjáum um okkar sorp sjálf og hættum urðun, endurvinnum þess í stað eins og unnt er og brennum það sem út af stendur á eins umhverfisvænan hátt og unnt er.
Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Miðflokksmenn styðja skynsamar lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa. Miðflokkurinn leggur áherslu á að verndun og stjórnsýsla umhverfismál sé sem mest hjá heimamönnum og hefur því lagst gegn stofnun hálendisþjóðgarðs.
Útlendingamál
Málefni útlendinga verður að skoða undir mörgum sjónarhornum. Þannig höfum við innflytjendur sem hingað koma til starfa og auðga bæði menningu og efnahag. Mikilvægt er að auðvelda hingaðkomu menntaðs fólks sem skilar miklu til íslensks atvinnulífs.
Málefni hælisleitenda og flóttamanna eru vandasamari. Miðflokkurinn leggur áherslu á að Íslendingar standi við sínar skuldbindingar gagnvart alþjóðlegum stofnunum en hvetur um leið til þess að horft verði til reynslu nágranalandanna sem vinna nú að endurskoðun stefnu sinnar.
Kerfi hælisveitinga er að mörgu leyti í ólestri og þarfnast gagngerrar endurskoðunar á borð við það sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Ótækt er að Ísland verði í auknum mæli að áfangastað glæpagengja sem féfletta hælisleitendur og leggja þá í stórhættu þegar nágrannalöndin hafa mætt þessum veruleika og náð árangri.
Miðflokkurinn telur rétt að líta til stefnu danskra jafnaðarmanna hvað varðar endurskoðun hælisleitendakerfisins. Rétt eins og hjá þeim ætti markmiðið að vera að enginn kæmi til hingað til að sækja um hæli. Íslendingar þurfa sjálfir að hafa stjórn á því hverjum yrði boðið til landsins og beina fólki í öruggan og lögmætan farveg. Með hjálp sem næst heimaslóð mun það fjármagn sem er til ráðstöfunar nýtast sem best til að hjálpa þeim sem mest eru hjálpar þurfi.
Velferðarmál
Í velferðarmálum leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á að koma til móts við þarfir eldri borgara en sá hópur getur ekki beðið lengur eftir réttlæti. Miðflokkurinn leggur áherslu á að núverandi fyrirkomulag skerðinga verði afnumið og þess í stað komi sanngjarnt kerfi þar sem ævistarf fólks sé virt og komið á jákvæðum hvötum sem stuðla að vinnu, verðmætasköpun og sparnaði. Þeir sem vilja vinna lengur eiga að hafa rétt á því. Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.
Í málefnum öryrkja vil Miðflokkurinn horfa til sömu viðmiða um sanngirni, eðlilegt lífsviðurværi og jákvæð hvata.