Heilbrigðismál
Framsóknarflokkurinn
- Framsókn vill fara í þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og velgengni í íslensku samfélagi.
- Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta.
- Framsókn leggur áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustunnar séu ávallt eins og best verður á kosið. Vitanlega þarf ávallt að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna því að um 60% útgjalda ríkisins fara til heilbrigðis- og velferðarmála, en markmið Framsóknar er og verður alltaf að tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag. Það skiptir meira máli en hvort að hið opinbera veiti alla þjónustuna sjálft eða kaupi hana af öðrum.
- Framsókn vill efla geðheilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni. Það er skynsamlegt eins og á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar til að fyrirbyggja frekari vanda með því að bregðast snemma við. Ekki síst þarf að auka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og félagslega veika hópa.
- Framsókn vill stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. Hugsa þarf þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins.
- Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað.
Viðreisn
Heilbrigðisþjónusta á að standa öllum til boða. Hún á að vera aðgengileg, góð og ódýr. Kostnaðargreining á að vera grundvöllur fjárveitinga til allrar velferðar- og heilbrigðisþjónustu.
Nýta á tæknina til að tengja betur sérfræðinga og fólkið í byggðum landsins og stuðla þannig að jöfnu aðgeng óháð búsetu. Efla þarf heilbrigðisstofnanir um allt land og gera starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks eftirsóknarverðara.
Viðreisn leggur áherslu á valfrelsi og þjónustumiðaða nálgun. Þar þjónar öflugt opinbert heilbrigðiskerfi með fjölbreyttu rekstrarformi mikilvægu hlutverki. Einkarekstur innan opinbera kerfisins, þar sem ríkið greiðir fyrir þjónustu er ekki það sama og einkavæðing.
Biðlistar eru gríðarstórt vandamál og afleiðing þeirrar stefnu að hafna framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Börn eiga ekki að bíða eftir greiningu eða þjónustu mánuðum og árum saman. Það þarf að draga verulega úr annarri bið í heilbrigðiskerfinu ekki síst hjá eldri borgurum. Fátt er dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Leysa þarf þá alvarlegu stöðu sem sem snýr að skimun og greiningu á leghálskrabbameini.
Viðreisn leggur áherslu á mikilvægi andlegrar heilsu og geðheilbrigðisþjónustu. Aðgangur fólks að sálfræðiþjónustu verði aukinn með því að fjármagna niðurgreiðslu slíkrar þjónustu í samræmi við nýsamþykkt lög sem Viðreisn lagði fram. Einnig þarf að auka forvarnir og forvirkar aðgerðir.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn vil taka forystu í velferðar- og heilbrigðismálum og móta nýja stefnu á breiðum grunni í opinberum rekstri og einkarekstri. Stefnan skal m.a. ná til menntunar heilbrigðisstarfsfólks, tækniþróunar og þarfa fólks.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur fólks til þjónustu tryggður. Með lögbundinni þjónustutryggingu verði fólk sett í fyrsta sæti. Sjúkratryggingar beri ábyrgð á því að sá sem þarf á þjónustu að halda fái hana innan ákveðins tíma – ásættanlegs biðtíma.
Nýsköpun á öllum sviðum velferðar- og heilbrigðisþjónustu getur stuðlað að umtalsvert aukinni hagkvæmni og gæðum í rekstri og tækifæri til aukinna útflutningstekna Nýta má rafrænar/stafrænar lausnir í auknum mæli. Efla ber sérstaklega forvarnir, endurhæfingu og geðheilbrigðisþjónustu. Slíkt getur dregið úr örorku og aukið lífsgæði almennings til muna.
Nýta þarf einkaframtakið betur á sviði heilbrigðisþjónustu og fjárfestinga. Sjúkratryggingar Íslands verða að rækja betur sitt hlutverk og sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að hafi fleiri en einn valkost þegar kemur að almennri heilbrigðisþjónustu. Ganga þarf frá samningum við rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu. Langir biðlistar og tvöfallt heilbrigðiskerfi eru þjóðarskömm. Allir eiga að njóta góðrar þjónustu án tillits til efnahags- eða þjóðfélagsstöðu.
Samningar þurfa að liggja fyrir um kaup á þjónustu við sjúkrastofnanir og sérfræðinga á sviði velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn og jafnræði skal ríkja á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.
Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins vill tryggja að heilbrigðiskerfið sé fjármagnað að fullu svo koma megi í veg fyrir langa biðlista eftir nauðsynlegum aðgerðum og meðferðum.
Stórauka þarf úrræði fyrir fólk með langvarandi sjúkdóma og fyrir aldraða, sem veita fólki möguleika á því að dveljast heima eins lengi og kostur er.
Grunnheilbrigðisþjónusta á að vera gjaldfrjáls. Það er allt of dýrt að fá alvarlega sjúkdóma á Íslandi. Nauðsynlegt er að draga úr kostnaðarbyrði vegna krabbameinsmeðferða og meðferða vegna annarra alvarlegra sjúkdóma
Allir landsmenn skulu hafa sama rétt á heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og efnahag. Sama jafnræði skal tryggt til tannlækna- og tannréttingaþjónustu. Við viljum vinda ofan af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og koma í veg fyrir að fólk á landsbyggðinni þurfi að óttast svartíma neyðarþjónustu.
Þá þarf að efla geðheilbrigðisúrræði til muna. Við þurfum að tryggja það að fólk geti leitað sér geðheilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að bíða mánuðum saman eftir viðtölum. Við eigum ekki að refsa fólki fyrir að vera með geðsjúkdóma, heldur hjálpa því.
Við höfum ítrekað talað gegn því að stjórnvöld sendi fólk í aðgerðir erlendis fremur en á einkareknar læknastöðvar innanlands með tilheyrandi óréttlætanlegri sóun á almannafé.
Niðurgreiða á sálfræðiþjónustu til allra og stórefla þarf sálfræðiþjónustu til barna og unglinga.
Sósíalistaflokkurinn
Heilbrigðisþjónusta tekur til allra þátta heilbrigðis: líkamlegs, tilfinningalegs og geðræns. Þar með talið tannlækningar og tannéttingar, sálfræðiþjónusta, sjúkra-og iðjuþjálfun sem og þjónusta talmeinafræðinga, áfengis- og fíkniefnameðferðir auk ráðgjafar og stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi og öðrum áföllum.
Heilsugæslan verði efld og að heilbrigðisstarfsfólk nálgist lækningar í heildrænu ljósi með tilliti til félags-og umhverfisþátta. Einnig skulu heilsugæslur bjóða uppá þjónustu fagfólks sem halda utan um réttindamál og aðstoða fólk við að sækja rétt sinn og vísa því veginn innan heilbrigðis- og almannatryggingakerfisins.
Samhliða því að Ísland setur sér langtímamarkmið, sem nær til lengri tíma en eins kjörtímabils, skal sinna þarfagreiningu, gæðamati og samkeppnishæfni við önnur lönd. Eftirlit skal vera í höndum óháðs aðila en ekki landlæknisembættisins.
Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við þroskaröskunum eða geðröskunum því meiri líkur eru á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna. Sjá nánar
Miðflokkurinn
Tryggja ber öllum Íslendingum jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Í því skyni verði horfið frá samþjöppunarstefnu í heilbrigðismálum og þjónustan færð nær almenningi um allt land. Heilbrigðiskerfið þarfnast endurskoðunar til að tryggja sem besta nýtingu fjármagns með það að markmiði að hámarka þjónustu við sjúklinga. Ríkið þarf því að nýta þjónustu þeirra sem eru best til þess fallnir að veita lækningar á viðunandi kjörum, en einnig krafta góðgerðarsamtaka og sjálfstæðra félaga, sem hafa skipt sköpum við að aðstoða sjúklinga og bæta lýðheilsu og gera það enn.
Með því að eyða biðlistum, fjölga hjúkrunar- og þjónusturýmum og efla heimaþjónustu má draga úr óþarfa kostnaði í heilbrigðiskerfinu og bæta líf sjúklinga og eldri borgara á Íslandi. Það er mikilvægt að þjónusta við sjúklinga verið byggð upp um allt land, núverandi heilbrigðisstofnanir verði betur nýttar og nýjar reistar. Meðal annars verði hafinn undirbúningur að nútímalegu sjúkrahúsi á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu.
Miðflokkurinn hefur lagt sérstaka áherslu á að öllum íslenskum ríkisborgurum, búsettum á Íslandi, 40 ára og eldri, standi til boða almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Það mun bjarga mannslífum, bæta lýðheilsu og spara peninga fyrir heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið.
Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn
Gagnger endurskoðun þarf að fara fram á heilbrigðisþjónustu um land allt. Eftir að búnar voru til núverandi heilbrigðisstofnanir hringinn um landið, hefur þjónustu við fólk á landsbyggðinni markvisst verið skert. Efla þarf í hverjum fjórðungi aðgengi að sérfræðingum þar sem það hlýtur að vera hagkvæmara að færa til starfsfólk heldur en að stefna fólki sem þarf slíka þjónustu öllu til Reykjavíkur eða Akureyrar með tilheyrandi kostnaði.Taka verður saman þann kostnað sem er í núverandi kerfi þ.e kostnað sem sjúkratryggingar greiða fyrir ferðir til sérfræðinga eða minniháttar aðgerða sem vel væri hægt að gera í viðkomandi fjórðungi auk þess kostnaðar sem sjúklingar eru að verða fyrir sem er mikill og mjög vanmetinn. Það getur ekki talist eðlilegt að þvæla notendum þjónustunnar út og suður um landið, fjölda sem skiptir þúsundum ár hvert í stað þess mætti setja upp færanlegt lækna og hjúkrunarteymi sem sérhæfði sig í þeim verkefnum þar sem ekki er krafist hátæknisjúkrahúss. Víðast hvar er húsnæði fyrir hendi, en gæti þurft að endurnýja tækjabúnað. Þetta teymi starfaði þá eingöngu við þessa færanlegu þjónustu og yrði skipað þannig að sem flesta þjónustu yrði hægt að fá í heimabyggð.
Píratar
Píratar vita að í heilbrigðismálum duga engar bókhaldsbrellur. Niðurskurður í forvörnum mun einungis leiða til aukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu síðar. Sparnaður í viðhaldi bygginga leiðir til veikinda íbúa og starfsfólks. Mengun mun áfram draga tugi Íslendinga til dauða á hverju ári ef ekkert er gert. Við nýtum peninginn betur með því að nálgast heilbrigðismálin heildstætt.
Kosningastefna Pírata í heilbrigðismálum er þrískipt. Kjarni hennar er að heilbrigðisþjónusta skuli vera gjaldfrjáls og fullfjármögnuð, réttindi sjúklinga og starfsfólks aukin og áhersla á skaðaminnkun og forvarnir. Hér er stefnan í mjög grófum dráttum:
Heilbrigðismál
Við viljum standa vörð um opinbera heilbrigðisþjónustu og efla hana á landsbyggðinni. Við viljum að heilbrigðisþjónusta sé gjaldfrjáls og tryggja niðurgreiðslu á tannlækningum, augnlækningum, sérfræðilækningum ofl. Við viljum gera fjarheilbrigðisþjónustu að raunverulegum valkosti. Við stöndum með heilbrigðisstéttum og viljum sjá til þess að kjaraviðræður þeirra endi ekki alltaf fyrir gerðardómi.
Geðheilbrigði
Píratar vilja meðferðarúrræði við geðrænum vanda sem byggjast á valdeflingu, samþykki og samvinnu í stað þvingana og frelsissviptinga. Við viljum niðurgreiða sálfræðiþjónustu, auka fjármagn í geðheilbrigðiskerfið og tryggja aðgengi nemenda að sálfræðiþjónustu.
Skaðaminnkun
Við lítum á vímuefnanotendur sem manneskjur, ekki glæpamenn. Þess vegna þarf að afglæpavæða neysluskammta og leggja áherslu á gagnreyndar forvarnir, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræði.
Samfylkingin
Það ríkir þjóðarsátt um nauðsyn þess að byggja upp betri heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll, óháð efnahag og búsetu, og nú verður ekki lengur beðið eftir brýnum aðgerðum. Það þarf bæði að leysa brýnustu vandamálin og byggja upp þjónustuna til lengri tíma. Á bak við hvert nafn á biðlista eftir nauðsynlegum aðgerðum, heimsóknum til sérfræðinga og viðtölum við sálfræðinga og geðlækna eru fjölskyldur sem þurfa lausn á sínum vanda. Samfylkingin telur tíma til kominn að hlusta á raddir heilbrigðisstarfsfólks sem hefur lengi kallað eftir umbótum. Í samvinnu við það þurfum við að bæta heilbrigðisþjónustuna með öllum ráðum.
Samfylkingin ætlar snúa við blaðinu í heilbrigðismálum. Meðal helstu áherslumála okkar er að:
- Auka fjármagn til opinberrar heilbrigðisþjónustu, og ráðast í aðgerðir gegn undirmönnun og stytta biðlista eftir brýnum aðgerðum
- Ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Gera geðheilbrigðisþjónustu að hluta af almenna heilbrigðiskerfinu. Byggja nútímalegar geðdeildir og vinna markvisst niður biðlista barna og ungmenna eftir nauðsynlegri þjónustu. Innleiða gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni.
- Létta álagi af Landspítala með kerfisbreytingum, nýjum búsetu- og þjónustuúrræðum fyrir eldra fólk, aukinni heimaþjónustu og markvissri fjölgun hjúkrunarrýma.
- Styrkja forvarnir. Bæta strax úr fyrirkomulagi skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameini og taka upp skimanir fyrir fleiri gerðum krabbameins.
Vinstri Græn
Aðgangur að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu eru sjálfsögð mannréttindi og VG hafnar markaðsvæðingu heilbrigðiskerfsins og að einkarekstur í ágóðaskyni eigi heima í heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum, uppruna og búsetu. Tryggja þarf að notendur heilbrigðisþjónustunnar komi að skipulagi hennar.
Vinstri-græn hafa lækkað kostnað fólks við heilbrigðisþjónustu og munu halda því áfram.
Aðgangur að hreinu vatni, mikil loftgæði og frjáls aðgangur að náttúrulegu umhverfi og náttúrulegum gæðum er allt hluti af heilbrigði einstaklinga og þjóðar.
VG telur að öflug heilsugæsla, fjölbreytt sérfræðiþjónusta, fræðsla, forvarnir og framúrskarandi sjúkrahús séu hornsteinar góðrar heilbrigðisþjónustu. Þá þarf að tryggja greiðan aðgang að samfelldri endurhæfingu.
Þjónusta við eldra fólk þarf að vera mun fjölbreyttari og fela í sér að fólk geti elst heima hjá sér með reisn. Umbylta þarf kerfinu þannig að aukin áhersla verði á heimahjúkrun og heimaþjónustu og dagdvalar- og hvíldarúrræði. Það mun draga úr þörf á hjúkrunarrýmum sem samt sem áður þurfa að vera af nægu framboði. Þetta mun gera heilbrigðisþjónustu við eldra fólk bæði betri og skilvirkari.
Huga þarf sérstaklega að þörfum langveikra.
Batahugmyndafræðin skal höfð að leiðarljósi í geðheilbrigðisþjónustu.
Samfélagsgeðþjónustu þarf að efla.
Tryggja þarf réttindi geðsjúkra og vinna gegn fordómum um geðsjúkdóma.
Metnaðarfull meðferðarúrræði eru nauðsynleg fyrir fíkla og búsetuúrræði fyrir þá sem lokið hafa meðferð.
Bjóða skal jaðarhópum upp á skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd.
Skilgreina þarf rétt sjúklinga til þjónustu og setja viðmið og reglur um hámark biðtíma.
Setja þarf viðmið um fjölda faglærðra heilbrigðisstarfsmanna á einstökum stöðum.
Tryggja þarf að sjúklingar geti tekið upplýsta ákvörðun um meðferð sína með öflugri upplýsingagjöf.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/\
Stefna Vinstri grænna í velferðarmálum: https://vg.is/stefna/velferdarstefna/