Skattamál

Framsóknarflokkurinn

  • Efla þarf skattaeftirlit til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og til eflingar á baráttunni gegn skattasniðgöngu fólks og fyrirtækja gegnum aflandsfélög og lágskattasvæði eða með öðrum hætti. Skoða þarf alla möguleika til að hamla svartri starfsemi þar með talið að draga úr eða takmarka magn reiðufjár í umferð. Slíkar aðgerðir myndu auka tekjur ríkissjóðs og tryggja þar með aukið fjármagn til uppbyggingar íslensks velferðarþjóðfélags án frekari álags eða skattahækkana á þá einstaklinga sem samviskusamlega greiða skatta samkvæmt gildandi reglum.
  • Framsókn vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.
  • Framsókn vill endurskoða skattkerfið með það fyrir augum að nýta tekjuskattskerfið í auknu mæli til tekjujöfnunar, m.a. með breytingum á persónuafslætti. Lagt er til að tekið verði upp tekjuskattskerfi þar sem persónuafsláttur fer lækkandi með hækkandi árstekjum og falli niður við tiltekna upphæð árstekna. Það myndi gera ríkinu kleift að nýta aukið fjármagn til hagsbóta fyrir hina tekjulægstu án aukinna fjárútláta úr ríkissjóði. Um tilfærslu milli tekjuhópa væri að ræða. Við þessar breytingar þarf samhliða að skoða skattlagningu fjármagnstekna.

Viðreisn

Aukið viðskiptafrelsi, markviss efnahagsstjórn, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar.

Viðreisn vill einfalda reglugerða- og skattaumhverfi landsins og nýta markaðslausnir þar sem þeim verður komið fyrir. Tekjuöflun ríkisins á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu þar sem allir bera réttlátar byrðar.

Viðreisn einsetur sér að vinna markvisst gegn skattaundanskotum, bæði innanlands og gegn notkun á erlendum skattaskjólum, en þau nema tugum milljarða á hverju ári. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðlegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til. Ef unnið er gegn skattaundanskotum skapast svigrúm til að allir greiði lægri skatta.

Viðreisn vill að skapaður verði grundvöllur fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs sem skapar samfélaginu ábata til lengri tíma og býr til tækifæri fyrir sem flest okkar til að lifa og starfa við sem best skilyrði í öllum byggðum landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn

Við lofum lækkun skatta – í þágu heimila og fyrirtækja. Skattakerfisbreytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um allt frá 2013 hafa miðað að því að létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins krefst þess að hætt verði að skattleggja fátækt. Undanfarna áratugi hafa skattleysismörk ekki tekið breytingum í réttu samræmi við þróun verðlags og kaupmáttar. Vegna þess er verið að skattleggja fátækt. Afnumdar verði skerðingar á atvinnutekjum eldri borgara, öryrkja og námsmanna.

Við viljum snúa við þeirri öfugþróun að persónuafsláttur rýrni ár frá ári í verðgildi og hækki þannig skattbyrði mest hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Flokkur fólksins vill að skattleysismörk verði hækkuð í 350.000 kr. á mánuði.

Til að fjármagna þá breytingu verði tekinn upp fallandi persónuafsláttur. Þannig verða lágmarkslaun skattfrjáls en fólk á ofurlaunum fær engan skattaafslátt.

Sósíalistaflokkurinn

Niðurbrot skattkerfisins á nýfrjálshyggjuárunum var gagnbylting hinna ríku, stefnt gegn hugmynd eftirstríðsáranna um velferðarríkið. Sú umbylting flutti ekki aðeins stórkostlega fjármuni úr almannasjóðum yfir til auðfólks, heldur stór jók við skattbyrði meginþorra almennings og margfaldaði gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu. Hin allra auðugustu sluppu við skatta og urðu miklu ríkari. Og almenningur borgaði brúsann.

Skattalækkanir til hinna auðugu voru réttlættar með því að lægri skattar á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur myndu örva svo hagkerfið að allir myndu hagnast. Þetta er hin svokallaða brauðmolakenning, dellukenning sem er fyrir löngu fallin. Til viðbótar var því haldið fram að með lágum sköttum myndu skatttekjur aukast þar sem skattaundanskot myndu minnka. Reynslan var þveröfug, fjármagnið í skattaskjólum jókst til muna á nýfrjálshyggjuárunum. Lægri álögur á hin ríku gerðu ekkert nema að auka við auð hinna ríku. Afleiðingin var veikari staða almannasjóða. Þeirri stöðu var síðan mætt með sölu eigna almennings, einkavæðingu, útvistun opinberrar þjónustu, aukinni gjaldtöku og skattahækkun á launafólk og almenning, einkum þau með miðlungstekjur og lægri tekjur.

Það er eðli kapítalísks hagkerfis að það flytur linnulaust fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem eiga mikið og vilja ætíð eignast meira. Skattkerfi eftirstríðsáranna var ætlað að vinna gegn þessari ónáttúru, að verja samfélagið gegn alræði auðvaldsins. Tækin voru stighækkandi skattar; að skattleggja sérstaklega auð, ofurtekjur og stærð og umfang á markaði. Nýfrjálshyggjan braut þetta kerfi niður og sleppti auðvaldinu lausu á samfélagið, magnaði upp auð og völd hinna ríku og molaði niður völd almennings. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn berst gegn óhóflegri og ósanngjarnri skattheimtu og telur að í skattkerfinu séu alvarlegar brotalamir sem verði að ráðst gegn. Þessar brotalamir stuðla að mismunun milli þjóðfélagshópa og landshluta en ekki síst gagnvart eldri borgurum sem Miðflokkurinn horfir sérstaklega til enda hefur flokkurinn sett út sérstaka réttindaskrá sem felur í sér að eldri borgarar munu greiða skatt á sama hátt og aðrir. Þá verði sá hluti lífeyrisgreiðslna sem er fjármagnstekjur verður skattlagður sem slíkur. Lífeyrir og aðrar hliðstæðar bætur frá Tryggingastofnun verða miðaðar við umsamin lágmarkslaun og hækki í takti við launavísitölu. Núverandi hindranir á atvinnu eldra fólks verða afnumdar. Frítekjumark atvinnutekna verður hækkað í 500.000 kr.á mánuði og frítekjumark greiðslna úr lífeyrissjóði verður 125.000 kr. á mánuði. Með því hvetur kerfið til sparnaðar og verðmætasköpunar. Miðflokkurinn telur að þannig er komið í veg fyrir mismunun gagnvart eldri borgurum og tækifæri þeirra aukin. Þá vill Miðflokkurinn auka vinnuframlag þeirra sem hafa vilja og getu til sem síðan eykur þjóðarframleiðslu og skatttekjur en bætir einnig fjárhag lífeyrissjóða.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Persónuafsláttur hækkaður í 100.000 kr. og skattleysismörk um 300.000 kr. Persónuafsláttur er í dag 50.792 kr og nemur þá hækkunin 49.208 kr. á mánuði til hvers og eins launamanns. Skattleysismörkin verða hækkuð í um 300.000 kr. Áætlað er að við þetta myndi tekjuskattur dragast saman um 95 milljarða kr. en heildaráhrifin á ríkissjóð yrðu um 130 milljarða kr. Mikið af þessum tekjusamdrætti kæmi strax til baka í formi virðisaukaskatts í aukinni neyslu og restin brúuð með sparnaði hjá ríkinu ca. 5% á ári og hlunnindaskatti á sjávarútveg. 11% virðisaukaskattur verði á allri útseldri vinnu, hvort sem það er á hárgreiðslustofu, hjá nuddara, fá heim pípara, rafvirkja eða málara – sem sagt öll útseld vinna aðeins 11% VSK. Endurheimta þarf traust og tryggja að smærri fyrirtæki eigi greiðan aðgang að hlutabréfamarkaði án yfirþyrmandi regluverks. Blásið verði lífi í íslenskan hlutabréfamarkað og fjármagnstekjuskattur einstaklinga afnuminn af hagnaði á sölu íslenskra hlutabréfa á markaði.

Píratar

Ef ég ætti að lýsa skattastefnu Pírata í tveimur orðum þá væri það „framsækin" (e. progressive) og „græn." Það þýðir að litli maðurinn beri ekki þungar byrðar og að við verðlaunum það sem er umhverfisvænt.

Við viljum t.d. lækka skatta á:
Lág laun
Örorku- og ellilífeyrisþega
Umhverfisvæna vörur og þjónustu
Græn sprotafyrirtæki
Lítil, loftslagsvæn fyrirtæki

Við viljum hækka skatta á:
Há laun
Ofurauð
Arð og fjármagnstekjur
Hagnaðardrifna auðlindanýtingu eins og sjávarútveg og stóriðju
Mengun og óumhverfisvæn stórfyrirtæki

Þá viljum við að sveitarfélög um land allt fái stærri hlut af verðmætunum sem þau skapa, eins og t.d. af virðisaukaskatti, gistináttagjaldi eða tekjuskatti fyrirtækja. Þannig myndast rými og fjármagnfyrir fjölbreytta atvinnu um land allt.

Til framtíðar viljum við líka að skattkerfið verði miklu kvikara. Að skattar verði gerðir upp sjálfkrafa og öll kerfi virki í rauntíma. Þannig mætti t.d. skattleggja mengun um leið og hún á sér stað.

Nánari upplýsingar má nálgast í kosningastefnu Pírata

Samfylkingin

Það er vitlaust gefið. Á Íslandi eru skattar á venjulegt fólk með þeim hæstu sem gerist innan OECD. Hér greiða allra tekjuhæstu og eignamestu hóparnir hins vegar minna til samfélagsins en annars staðar á Norðurlöndum og þeir tekjulægstu meira. Við viljum nýta skattkerfið til að afla tekna og jafna leikinn í samfélagi þar sem eignir fólks ráða sífellt meiru um tækifæri þess og barna þeirra. Við viljum auk þess innheimta fullt gjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign. Þá kallar réttlátara og skilvirkara skattkerfi á að við tökum á skattaundanskotum af fullri hörku.

Við viljum hækka barnabætur þannig að fleiri fjölskyldur fái hærri mánaðarlegar greiðslur og hækka grunnlífeyri eldra fólks og öryrkja. Það viljum við fjármagna með því að setja á hóflegan stóreignaskatt á hreina eign umfram 200 milljónir - þ.e. ríkasta 1% samfélagsins. Þá einsetur Samfylkingin sér að ráðast af krafti gegn alltof háum jaðarsköttum og vinnuletjandi skerðingum.

Samfylkingin vill taka skattaumhverfi smærri fyrirtækja til endurskoðunar með það fyrir augum að stuðla að auknu jafnræði á mörkuðum. Það er sanngirnismál en leiðir líka til fjölbreyttara og þróttmeira atvinnulífs og líflegri samkeppni en ella til hagsbóta fyrir almenning. Við viljum létta á regluverki um starfsemi einyrkja til að auðvelda þeim róðurinn en efla um leið aðgerðir gegn gerviverktöku.

Vinstri Græn

Skattar eiga að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag, aukinn jöfnuð og önnur samfélagsleg markmið, svo sem í umhverfismálum, lýðheilsu og byggðastefnu.

  • Við eigum að halda áfram að byggja réttlátara skattkerfi enda er skattkerfið mikilvægasta jöfnunartækið.

  • Vinstri-græn beittu sér fyrir upptöku þrepaskipts tekjuskatts á kjörtímabilinu og vilja útfæra þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt sem er stórt réttlætismál.

  • Ísland á að skipa sér í framvarðarsveit ríkja þar sem skattalegar stöðutökur og brask með gjaldmiðla og skammtímagróða fjármagnshreyfingar verði skattlagt.

  • Til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja frá velferðarkerfinu þarf að stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/\

Stefna Vinstri grænna í efnahagsmálum: https://vg.is/stefna/efnahagsmal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki