Útlendingamál

Framsóknarflokkurinn

  • Mikilvægt er að við móttöku útlendinga sé unnið með mannréttindi að leiðarljósi, að framkvæmd laga sé skilvirk og vel sé staðið að skipulagi hvort sem er vegna umsókna um dvöl, atvinnuréttindi eða þjónustu samfélagsins. Þá vill Framsókn að mannréttindi barna á flótta séu tryggð og litið á þeirra hagsmuni fyrst og fremst við ákvarðanatöku um dvöl hér á landi. Auka þarf framlög til neyðaraðstoðar til að aðstoða fólk sem er á flótta.
  • Setja þarf skýrari reglur varðandi fólk sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Það er ómannúðlegt að láta fólk dvelja hér í langan tíma í óvissu um framtíð sína. Setja þarf aukinn kraft í meðhöndlun umsókna og aukna fjármuni til að sinna þeim sem líklega munu fá alþjóðlega vernd.
  • Framsókn krefst þess að áfram sé unnið með opið upplýsingaflæði og í góðu samstarfi við aðrar erlendar þjóðir en um leið að sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar sé tryggt með skýrum og eðlilegum takmörkunum. Vera Íslands í Schengen tryggir því miður ekki tímanlega og öfluga upplýsingagjöf okkur til handa. Við þurfum að koma í veg fyrir að hættulegir einstaklingar misnoti kerfið á sama tíma sem við eigum að taka vel á móti flóttafólki sem sannarlega þarf á vernd að halda.

Viðreisn

Viðreisn vill byggja upp fjölþjóðlegt og opið samfélag. Viðreisn stendur vörð um fjölbreytileikann. Tryggja skal mannréttindi og virðingu fyrir öllum. Brýnt er að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri og jafnan lagalegan rétt án tillits til uppruna. Gildir þetta jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms og þátttöku í stjórnmálum. Hér þarf að rýmka kosningarétt, rýmka atvinnu- og dvalarréttindi fólks utan EES svæðisins og auka rétt útlendinga sem hér stunda nám til að setjast að hér á landi þegar námi lýkur.

Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna er því miður raunin á íslenskum vinnumarkaði. Viðreisn telur þessa mismunun ólíðandi og brýnt að ráðast í viðeigandi aðgerðir gegn allri mismunun á grundvelli uppruna. Inngilding (e. inclusion) í íslenskt samfélag á að vera meginstef á öllum sviðum. Íslenskukennsla er mikilvæg grunnstoð sem öll eiga rétt á.

Tryggja verður að fólk á flótta og hælisleitendur hljóti mannsæmandi skjól hérlendis ásamt því að endurskoða þau búsetuúrræði sem standa þeim til boða. Fólk á flótta á að vera jafn velkomið og aðrir. Tryggjum réttindi til þjónustu, náms og vinnu þegar fólk kemur hingað til lands og leyfum þeim að búa sér betra líf og taka virkan þátt í samfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Auðvelda ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem getur fengið starf hér á landi, að koma hingað og starfa. Stytta þarf og einfalda alla ferla og kerfi er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingalöggjöfina þarf að þróa áfram af ábyrgð, raunsæi og mannúð.

Flokkur Fólksins

Flokkurinn leggur áherslu á að innflytendur eigi greiða leið að aðlögun að íslensku samfélagi. Lykilinn að því er að fólki sé gert kleift að verða þátttakendur í íslensku samfélagi, t. d. á vinnumarkaði, að fólk njóti tækifæra til menntunar og þess sé gætt að það eigi kost á að tileinka sér kunnáttu í íslensku. Innflytjendur skulu hvattir til íslenskunáms enda er kunnátta í málinu mikilvægur lykill að því að hver og einn geti orðið fullur þátttakandi í samfélaginu. Flokkur fólksins leggur áherslu á að sérstaklega sé hlúð að börnum innflytjenda þannig að þeim líði vel í íslensku samfélagi.

Við leggjum áherslu á að haldið sé uppi öflugri landamæragæslu á Íslandi.

Við viljum að gerð verði úttekt á Schengensamstarfinu með gagnrýnum huga og það metið vandlega hvort Ísland haldi áfram þáttöku.

Afgreiðsla hælisumsókna skal vera skilvirk. Halda verður í skefjum þeim kostnaði sem keyrt hefur úr hófi vegna tilhæfulausra umsókna. Afgreiða á slíkar umsóknir innan 48 stunda eins og gert í nágrannalöndum. Ísland á ekki að hafa lægri þröskuld en aðrar þjóðir.

Sósíalistaflokkurinn

Í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er afleiðing styrjaldja og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytingar. Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga á næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldursamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sé að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Málefni útlendinga verður að skoða undir mörgum sjónarhornum. Þannig höfum við innflytjendur sem hingað koma til starfa og auðga bæði menningu og efnahag. Mikilvægt er að auðvelda hingaðkomu menntaðs fólks sem skilar miklu til íslensks atvinnulífs.

Málefni hælisleitenda og flóttamanna eru vandasamari. Miðflokkurinn leggur áherslu á að Íslendingar standi við sínar skuldbindingar gagnvart alþjóðlegum stofnunum en hvetur um leið til þess að horft verði til reynslu nágranalandanna sem vinna nú að endurskoðun stefnu sinnar.

Kerfi hælisveitinga er að mörgu leyti í ólestri og þarfnast gagngerrar endurskoðunar á borð við það sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Ótækt er að Ísland verði í auknum mæli að áfangastað glæpagengja sem féfletta hælisleitendur og leggja þá í stórhættu þegar nágrannalöndin hafa mætt þessum veruleika og náð árangri.

Miðflokkurinn telur rétt að líta til stefnu danskra jafnaðarmanna hvað varðar endurskoðun hælisleitendakerfisins. Rétt eins og hjá þeim ætti markmiðið að vera að enginn kæmi til hingað til að sækja um hæli. Íslendingar þurfa sjálfir að hafa stjórn á því hverjum yrði boðið til landsins og beina fólki í öruggan og lögmætan farveg. Með hjálp sem næst heimaslóð mun það fjármagn sem er til ráðstöfunar nýtast sem best til að hjálpa þeim sem mest eru hjálpar þurfi.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Skoðað verði hvort Ísland geti farið þá faglegu leið sem Ástralía, Kanada og Nýja Sjáland hafa valið sér í innflytjendamálum. Þessi ríki nota punktakerfi sem byggir á fjölbreyttum viðmiðum eins og aldri umsækjanda, tungumálakunnáttu, menntun, sérfræðikunnáttu auk þess sem starfstilboð frá atvinnurekanda vegur þungt. Erlendir námsmenn í leyfi frá námi hvaðan sem þeir koma ættu auðveldlega að geta sótt um takmarkað atvinnuleyfi á Íslandi til að kynnast íslenskri menningu, landi og þjóð.

Píratar

Píratar tala fyrir nýrri nálgun í málefnum innflytjenda á Íslandi. Næstum fimmti hver einstaklingur á vinnumarkaðnum er af erlendu bergi brotinn - Ísland myndi hreinlega ekki ganga án útlendinga. Það er því brýn þörf á margvíslegum breytingum í útlendingamálum.

Leggjum niður Útlendingastofnun
Píratar vilja leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og fela verkefni stofnunarinnar öðrum embættum, svo sem Þjóðskrá og sýslumönnum.

Gerum þetta betur
Píratar vilja leggja áherslu á mannúðlegri, einfaldari og notendavænni meðhöndlun umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt. Umsóknir fólks eiga almennt að vera teknar til efnismeðferðar og í öllum tilvikum skal skilgreina málsmeðferðartíma frá upphafi umsóknar og fram að því að einstaklingur er fluttur úr landi.

Brottvísanir
Píratar telja brottvísanir þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, sérstaklega barna, ómannúðlegar og að þeim skuli hætt án tafar. Að sama skapi eru brottvísanir til óöruggra ríkja innan Evrópu, þar með talið Grikklands og Ungverjalands, ólíðandi og þeim ber að hætta strax.

Aðrar aðgerðir
Píratar vilja:

  • Styðja við fórnarlömb mansals
  • Styðja erlenda verkamenn og refsa brotlegum vinnuveitendum
  • Efla íslensku- og móðurmálskennslu barna
  • Efla upplýsingagjöf til útlendinga um réttindi þeirra
  • Að öllum tegundum dvalarleyfis fylgi atvinnuleyfi
  • Hjálpa útlendingum að aðlagast og grípa til aðgerða gegn útlendingahatri
  • Og fleira

Samfylkingin

Bætt staða innflytjenda á Íslandi er ekki aðeins réttlætismál heldur lykillinn að farsælli uppbyggingu fjölmenningarsamfélags þar sem fjölbreytni, gagnkvæmur skilningur og jöfnuður fara hönd í hönd. Samfylkingin vill liðka fyrir atvinnuþátttöku innflytjenda með sveigjanlegra regluverki og stuðla að því að menntun þeirra fáist í auknum mæli viðurkennd og metin til launa. Auðvelda þarf fólki utan EES-svæðisins að setjast að og vinna á Íslandi. Þá á íslenskukennsla að vera ódýr eða gjaldfrjáls og aðgengileg á fjölbreyttu formi. Samfylkingin telur að hið opinbera eigi að koma að greiðslu fyrir íslenskunámskeið sem séu aðgengileg bæði vinnandi fólki og einstaklingum án atvinnu. Stjórnvöld eiga að leita allra leiða til að virkja fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að vinna gegn fordómum og tryggja að aðfluttir upplifi sig velkomna. Harka gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd stríðir gegn grunngildum okkar um samhygð og samstöðu. Samfylkingin vill ráðast í gagngera endurskoðun á útlendingalöggjöfinni og móttökukerfi umsækjenda um alþjóðlega vernd með mannúð að leiðarljósi og hliðsjón af mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest.

Vinstri Græn

Fjölbreytileiki er styrkur hvers samfélags. Innflytjendur eiga að hafa sömu tækifæri og réttindi og innfæddir.

  • Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að því að veita innflytjendum nauðsynlegar upplýsingar

  • Íslenskukennslu skal efla og tryggja að börn og ungmenni sem ekki eiga íslensku að móðurmáli geti staðið jafnöldrum sínum jafnfætis í námi.

  • Allt vinnandi fólk á Íslandi skal njóta fullra réttinda á vinnumarkaði, ekki ber að líða félagsleg undirboð, launaþjófnað og önnur brot á vinnumarkaði.

  • Taka þarf vel á móti fólki á flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd.

  • Veita á öllu flóttafólki sambærilega þjónustu óháð því hvort það sé kvótaflóttafólk eða fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd.

  • Hinsegin fólki á flótta skal tryggja sérstaka vernd í lögum.

  • VG vill skipta upp Útlendingastofnun og skilja á milli þjónustu við flóttafólk og stjórnsýslu umsókna. Sé nauðsynlegt að leggja mat á aldur barns skal það gert með heildstæðu mati, aldrei með aldursgreiningum á tönnum.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki