Umhverfismál

Framsóknarflokkurinn

  • Grunnstef í stefnu Framsóknarflokksins er virðing fyrir náttúrunni. Íslendingar byggja sína tilveru á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar. Mikilvægt er að arður af nýtingu auðlindanna renni til samfélagsins og að nýting sé ávallt út frá viðmiðum hringrásarhagkerfisins. Hreint loft, land og haf, ásamt fjölbreytni íslenskrar náttúru, ber að vernda til framtíðar
  • Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.
  • Framsókn vill efla grænan iðnað, þar á meðal vetnisframleiðslu, og nýta tækifærin í landinu til nýsköpunar, þróunar og verðmætasköpunar í loftslagsmálum. Verkefnin þurfa að vera markvissari og skilvirkari og til þess að leiða það telur Framsókn nauðsynlegt að koma á sérstöku loftslagsráðuneyti.
  • Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Hringrásarhagkerfið snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs.
  • Í samstarfi við vísindasamfélagið, félagasamtök og sveitarfélög þarf að vinna að almennri vitundarvakningu um tækifæri almennings til að hafa áhrif. Framsókn vill að markvisst verði stefnt að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, þar á meðal þau sem varða umhverfis- og loftlagsmál.

Viðreisn

Náttúra Íslands, með sína líffræðilegu og jarðfræðilegu fjölbreytni, er ein okkar dýrmætasta auðlind. Viðreisn vill hvetjandi grænt kerfi þannig að það borgi sig að vera umhverfisvæn og að þau borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við skynsamlega nýtingu er lykillinn að grænni framtíð.

Viðreisn leggur áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu. Nauðsynlegt er að öll framleiðsla og þjónusta verði kolefnishlutlaus og rýri ekki náttúrugæði til langframa. Móta þarf heildstæða stefnu, í samráði við sérfræðinga, um sjálfbæra landnýtingu sem byggir á vernd vistkerfa- og jarðminja, tekur tillit til bættrar vatnsverndar, og rýrir ekki náttúrugæði landsins.

Draga þarf almennt úr losun frá landi og stórauka bindingu í jarðvegi og gróðri. Takmarka þarf rask á vistkerfum vegna ágengra tegunda og samhliða vernda og efla líffræðilega fjölbreytni með stóraukinni endurheimt raskaðra vistkerfa. Almannahagsmunir krefjast þess að næstu ríkisstjórnir setji baráttuna við loftslagsvána í algjöran forgang.

Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás, þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Ísland og Íslendingar eiga vera í forystu varðandi náttúruvernd, loftslags- og umhverfismál á heimsvísu með skynsamlegri nýtingu orkuauðlinda í þágu sjálfbærni, fjölbreytileika og grænnar verðmætasköpunar.

Eftir fremsta megni skal horft til þess við opinber innkaup að umhverfisfótspor vöru eða þjónustu sé sem minnst og sé þess kostur að innkaup ríkisins hafi jákvæði áhrif á umhverfið.

Setja skal samræmdar reglur um sorpflokkun fyrir allt landið og stefna að eins mikilli endurvinnslu innanlands og kostur er. Þannig eflast hringrásarhagkerfið og verðmætasköpun á grundvelli hugvits, vísinda, tækni og nýsköpunar.

Allur opinber stuðningur við atvinnustarfsemi og leyfisveitingar til bænda, útgerða og annarra fyrirtækja skal vera á grundvelli sjálfbærni og framúrskarandi umgengi við auðlindir til lands og sjávar. Meginreglan sé að stuðningi eða ívilnunum af hendi hins opinbera fylgi samfélagsleg ábyrgð varðandi náttútvernd, umhverfis- og loftslagsmál.

Helsta framlag Íslands til umhverfismála eru orkuskiptin. Staða Íslands í orkumálum er öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa.

Flokkur Fólksins

Hrein náttúra er auðlind sem skila ber óspilltri til komandi kynslóða.

Flokkur fólksins vill nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi og á eins sjálfbæran hátt og unnt er, svo að draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd. Virða á öll viðmið rammaáætlunar, þ.e. áhrif á náttúru; menningu og minjar; samfélag og efnahag. Almenningur hafi ávallt aðgang að ódýrri orku.

Við styðjum ekki takmarkanir á ferðafrelsi almennings innanlands til að njóta eigin náttúru. Hálendið er unaðsreitur sem má ekki stofnanavæða í formi þjóðgarðs með tilheyrandi ráðherraræði á kostnað almannaréttar. Það hafa ekki allir efni á utanlandsferðum.

Við styðjum alla viðleitni til að draga úr hvers kyns mengun og Stefnt skal að því að minnka plastnotkun með öllum ráðum, auka endurvinnslu og velja endurnýjanlegt hráefni í auknum mæli. Stuðla ber að fullnýtingu og endurvinnslu, draga úr matvælasóun og lágmarka urðun og brennslu sorps og annars úrgangs.

Við teljum að að Ísland eigi að vera fyrirmynd í að að sporna gegn mengun í hafinu. Markvisst þjóðarátak verði gert í að hreinsa rusl úr fjörum landsins.

Við erum hlynnt rannsóknum á auðlindum á landgrunni Íslands en leggjumst gegn olíu- og gasvinnslu á hafsvæðum norðan heimskautsbaugs.

Hafrannsóknir skulu efldar með áherslu á vistfræðirannsóknir.

Sósíalistaflokkurinn

Umhverfis og loftslagsmál eru siðferðis- og mannúðarmál sem snerta alla og ber okkur að taka skýra afstöðu til þeirra. Sú hnattræna hlýnun sem við horfum fram á kallar á að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og brugðist við með byltingarkenndum kerfisbreytingum. Kapitalískt markaðshagkerfi, sem hvetur til hámarks framleiðslu og hámarks gróða, er stærsti óvinur vistkerfisins og stærsti orsakaþáttur þeirra loftlagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir. Framleiðsluhættir stórfyrirtækja og neysluhættir fólks í dag ganga óhjákvæmilega á náttúruna og bregðast þarf við þessu með viðurlögum og öflugum eftirlitsstofnunum. Lausnir svokallaðs “græns kapítalisma” og einstaklingsmiðaðrar nálgunar í anda nýfrjálshyggju virka ekki til þess að berjast gegn loftslagsvandanum. Það er mikilvægt að vekja almenning til meðvitundar um að draga úr neyslu, nýta og endurnvinna en raunverulegi vandinn liggur í framleiðsluenda vörunnar. Áhersla regluverksins þarf að vera á framleiðslu og innflutningi en síður á að „refsa” neytandanum fyrir að neyta þess er þegar hefur verið framleitt.

Efla skal innlenda framleiðslu og stefna að sjálfbærara samfélagi. Hætta innflutningi á vörum sem hægt er að framleiða við innlend skilyrði. Efla skal innlenda grænmetis- og ávaxtaræktun sem og baunaræktun og korn með niðurgreiðslu hins opinbera á grænni orku. Reynt verði að fækka milligönguliðum eins og kostur er og gefa neytanda greiðan aðgang að framleiðanda matarins. Að njóta hollra, lífrænna matvæla hefur ekki verið efnahagslega á færi allra. Mikilvægt er að tækifærin til að lifa heilbrigðu lífi sem og að stunda náttúruvernd fari ekki eftir stétt eða stöðu fólks í samfélaginu. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur áherslu á að nýta gæði landsins með sjálfbærni og hreinleika sem markmið. Þannig verði gert átak í meðhöndlun úrgangs og fráveitumál efld þannig að þau sæmi matvælaframleiðsluþjóð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænna að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langan veg. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu sem geti í framtíðinni starfað í hátækniumhverfi hér á landi. Hér eru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Um leið er mikilvægt að gerbreyta stefnu Íslendinga í sorpmálum en Miðflokkurinn hefur talað fyrir því að hér verði reist hátæknisorpbrennslustöð. Hingað til hefur langmest af því sorpi sem fellur til verið urðað eða sent til útlanda og óljóst er hvað verður um það þar. Það er ólíðandi. Miðflokkurinn telur brýnt að könnuð verði hagkvæmni þess að við Íslendingar sjáum um okkar sorp sjálf og hættum urðun, endurvinnum þess í stað eins og unnt er og brennum það sem út af stendur á eins umhverfisvænan hátt og unnt er.

Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Miðflokksmenn styðja skynsamar lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa. Miðflokkurinn leggur áherslu á að verndun og stjórnsýsla umhverfismál sé sem mest hjá heimamönnum og hefur því lagst gegn stofnun hálendisþjóðgarðs.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Allir Íslendingar eru náttúruunnendur í hjarta sínu og lögð verður áhersla á verndun íslenskrar náttúru. Stöðva þarf gróður- og jarðvegseyðingu með uppgræðslu og ræktun skjólbelta. Flokkurinn styður vistvænar fiskveiðar og verndun uppvaxtarsvæða nytjafiska. Vernda verður lífríki sjávar á grunnsævi við Ísland með öllum ráðum. Verndun hafsins gegn plastmengun og annarri mengun er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslendinga. Flokkurinn leggur áherslu á að njóta náttúrunnar án þess að ganga á möguleika komandi kynslóða til hins sama, stuðla að sjálfbærri notkun auðlinda til sjávar og sveita og þar með höldum við öllu landinu í byggð. Framtíð Íslands er samofin framleiðslu á mat, vatni, orku og blómlegri ferðaþjónustu. Ísland sem friðland óbeislaðrar náttúrufegurðar og dýralífs er fjársjóður framtíðarinnar. Styðja ber frumkvæði almennings og félagasamtaka sem vilja taka þátt í sjálfbærri þróun samfélagsins og mæta þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Stuðningur hins opinbera við félagasamtök er mikilvæg leið til að treysta þátttöku almennings við að ná þeim markmiðum í loftslagsmálum sem við höfum skrifað undir á alþjóða vettvangi og ætlum að standa við. Sjálfbær þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld.

Píratar

Stefna Pírata í umhverfismálum er órjúfanlegur hluti af loftslagsstefnu flokksins. Þar er sérstaklega talað um hringrásarhagkerfi og náttúruvernd, enda viljum við að óspillt náttúra eigi sterkan málsvara við stjórnvölinn. Þá er Pírötum annt um verndun hafsins, sem sést í sjávarútvegs- og fiskeldisstefnunum okkar.

Hálendið
Þó svo að ferlið í kringum hálendisþjóðgarðinn hafi verið klúður þá þarf að vernda hálendið. Píratar vilja hins vegar gera það á Píratalegan hátt: Með lýðræðið og frjálsa för fólks að leiðarljósi, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi eru varin.

Uppbygging og uppgræðsla
Pírata telja brýnt að veita árlega fjármagni til verndar, uppbyggingar og úrbóta á vinsælum áfangastöðum í náttúrunni. Þá vilja Píratar efla skógrækt og landgræðslu á landbúnaðar- og örfoka landi, en þó í samræmi við skipulagsáætlanir og grunnprinsipp, eins og varúðarregluna.

Dýravernd
Píratar eru dýravinir með sérstaka dýraverndarstefnu og vilja endurskoða lög um villt dýr og fugla á Íslandi til að tryggja vernd þeirra. Við viljum þannig að spendýr í sjó njóti sömu verndar og spendýr á landi. Þá þarf að banna veiði á villtum dýrum sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar, eins og heimskautaref og sel. Píratar vilja líka gera ríkari umhverfiskröfur til fiskeldisfyrirtækja og stórefla rannsóknir á umhverfisáhrifum sjávarútvegar.

Loftsslagsstefnu Pírata má nálgast hér

Samfylkingin

Samfylkingin hefur kynnt 50 alvöru aðgerðir sem Samfylkingin óskar eftir umboði kjósenda til að hrinda í framkvæmd. Við ætlum að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: Raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins. Það þarf pólitíska forystu um réttlát og sjálfbær umskipti í íslensku atvinnulífi, hraðari orkuskipti og metnaðarfulla græna uppbyggingu um allt land. Samfylkingin trúir því að engin af stóru áskorunum mannkyns verða sigraðar nema í mjög fjölþjóðlegu samstarfi. Hér má lesa nánar um aðgerðirnar 50. https://xs.is/loftslag

Helstu áherslur

  • Lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.
  • Móta nýja og miklu metnaðarfyllri aðgerðaáætlun
  • Hefja undirbúning að Keflavíkurlínu og flýta Borgarlínu
  • Gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland.
  • Hraða orkuskiptum í samgöngum.
  • Stofna grænan fjárfestingasjóð.
  • Ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu án þess að draga úr stuðningi við bændur
  • Banna alfarið flutninga og notkun svartolíu í íslenskri landhelgi, rafvæða hafnir og leggja bann við olíuborun í efnahagslögsögunni.
  • Styðja markvisst við tæknilausnir til kolefnisföngunar- og förgunar.
  • Taka upp græna utanríkisstefnu

Vinstri Græn

Vinstrihreyfingin grænt framboð stendur vörð um ósnortna náttúru. Þau sem nýta auðlindir í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, sjávarauðlindin eða annað, eiga að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu.

  • Alþingi á að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.

  • Festa þarf mengunarbótaregluna betur í sessi.

  • Vinna þarf áfram ötullega að banni við flutningi og bruna svartolíu á Norðurslóðum.

  • Ísland getur náð einstökum árangri í náttúruvernd á alþjóðavísu með því að vernda óbyggð víðerni. Stefna ber að verndun 30% svæða á landi og á hafi fyrir árið 2030.

  • Stofna ber þjóðgarð á miðhálendi Íslands og þjóðgarð á Vestfjörðum. Slíkir þjóðgarðar eru einnig mikilvægir til að tryggja vernd jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni.

  • Stjórnvöld eiga að móta stefnu um verndarsvæði í hafi til samræmis við alþjóðleg viðmið og koma henni til framkvæmda.

  • Afgreiða þarf 3. áfanga rammaáætlunar.

  • Endurskoða þarf löggjöfina um rammaáætlun með náttúru- og minjavernd að leiðarljósi, alþjóðlegar skuldbindingar um líffræðilega fjölbreytni og landslagsheildir og byggja jafnframt á mati á framkvæmd gildandi löggjafar í samráði við hagaðila og sérfræðinga.

  • Endurskoða þarf stærðarviðmið virkjanaframkvæmda þar sem megavött eru ómarktækur mælikvarði á umhverfisáhrif og halda þarf áfram vinnu við endurskoðun á regluverki vegna vindorku.

  • Orkuþörf samfélagsins þarf að meta á forsendum grænnar uppbyggingar og sjálfbærni.

  • Almenningur á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum snemma í ferli ákvarðanatöku með góðu aðgengi að upplýsingum og þátttökurétti.

  • Ísland á að vera í forystu um róttækar, raunhæfar og réttlátar aðgerðir í umhverfismálum og beita sér af krafti innanlands og á alþjóðavettvangi.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Stefna Vinstri grænna í orkumálum: https://vg.is/stefna/orkumal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki